Bílaframleiðandinn Hyundai Motor mun ráðast í innköllun á tæplega 82 þúsund rafbílum á heimsvísu. Suður-kóreska fyrirtækið hefur tilkynnt að innköllunin muni kosta um eina billjón won eða rúmlega 110 milljarða króna, sem greinendur telja vera þá dýrustu í sögu rafbíla, samkvæmt frétt Financial Times .

„Okkar áhersla er að auka öryggi neytenda þrátt fyrir litlar líkur á eldhættu og hárri fjárhagsbyrði,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins í gær.

Innköllunin nær til nærri 76 þúsund bíla af tegundinni Kona, sem er þeirra mest seldi rafbíll. Hún nær einnig til Ioniq týpunnar og rafknúinna hópferðabifreiða sem voru framleiddar á tímabilinu nóvember 2017 til mars á síðasta ári og nota rafhlöður frá verksmiðju LG Chem í Nanjing í Kína.

Þetta verður önnur innköllun Hyundai á Kona bílnum en fyrirtækið sagði í október að það myndi innkalla 77 þúsund þeirra til að uppfæra hugbúnað fyrir háspennurafhlöðu bílsins.

Neytendastofa tilkynnti í nóvember að Hyundai á Íslandi hafi innkallað 420 Kona EV bifreiðar vegna þessarar hugbúnaðaruppfærslu. Heiðar J Sveinsson, framkvæmdastjóri Hyundai á Íslandi, segist ekki hafa fengið upplýsingar ennþá vegna málsins og hvort innkalla þurfi aftur Kona bílana hér á landi.

Hyundai og LG Energy Solution, dótturfyrirtæki LG Chem, ákváðu að skipta aftur út rafhlöðum í Kona bílunum þrátt fyrir uppfærsluna þar sem þau hafi ekki náð að koma alfarið í veg fyrir eldhættu, samkvæmt samgönguráðuneyti Suður-Kóreu. Fyrirtækin eru í viðræðum um hvernig þau ætli að skipta kostnaðinum af innkölluninni á milli sín.

Hlutabréfaverð Hyundai féll um 3,9% í gær. Gengi LG Chem, sem er stærsti framleiðandi í heimi fyrir rafhlöður rafbíla, féll sömuleiðis um 2,8% í viðskiptum gærdagsins.