Fyrsta lúxuskerran frá kínverska framleiðandanum Honqi, Red Flag L5, er til sýnis á bílasýningunni Peking sem lýkur á þriðjudag.

Bíllinn seldist á dögunum fyrir um 92 milljónir króna, um 800 þúsund Bandaríkjadali.

Kínverskir lúxusbílaframleiðendur hafa átt mjög erfitt uppdráttar á heimamarkaðnum. Kínverskir efnamenn vilja heldur kaupa Audi, BMW, Mercedes-Benz, Lexus, Rolls-Royce og aðra vestræna lúxusbíla.

Hongqi hefur verið lúxusbíladeild kínverska bílaframleiðandans FAW frá árinu 1958. Það ár framleiddi fyrirtækið Rauða fánann (e. Red flag), sérstaka viðhafnarbifreið fyrir Maó „formann“ Zedong.

Fyrsti Rauði fáninn, CA72, var reyndar ekki kínverskari en svo að hann var byggður á Chrysler Imperial árgerð 1955. Sem sagt bandarískur.