*

föstudagur, 14. maí 2021
Erlent 20. apríl 2021 12:20

Dýrasti brandari sögunnar?

Rafmyntin Dogecoin hefur hækkað um 8.100% í ár sem er tvöfalt meira en hækkun S&P 500 vísitölunnar frá árinu 1988.

Ritstjórn

Rafmyntin Dogecoin er nú orðin verðmætari en alþjóðleg fyrirtæki á borð við Marriott International og Ford Motor eftir rúmlega 450% hækkun í síðastliðinni viku. Markaðsvirði rafmyntarinnar er orðið rúmlega 50 milljarðar Bandaríkjadala.

Dogecoin var stofnuð árið 2013 af tveimur hugbúnaðarverkfræðingum eftir að annar þeirra hafði í gamni spáð hver yrði næsta stóra rafmyntin.

Verðgengi Dogecoin hefur hækkað um 8.100% í ár sem er tvöfalt hærra en hækkun S&P 500 vísitölunnar, með arðgreiðslum innföldum, frá árinu 1988, að því er kemur fram í umfjöllun Wall Street Journal.  

Rafmyntin hækkaði úr rúmlega 0,07 í 0,40 dali á síðustu átta dögum. Netverjar binda vonir við að þetta mikla skrið haldi áfram og hafa lýst deginum í dag, 20. apríl sem „Doge day“, en þeir vonast til að koma gengi Dogecoin yfir einn Bandaríkjadal fyrir lok dagsins.

Þessi gífurlega hækkun á gengi myntarinnar undanfarna daga minnir á Gamestop málið sem hófst í lok janúar síðastliðinn. Hlutabréf tölvu- og raftækjaverslunarkeðjunnar fimmfölduðust í verði á einungis tveimur dögum eftir að dagkaupmenn á spjallborðinu r/wallstreetbets á Reddit ákváðu að keyra upp verðið eftir að vogunarsjóðir byrjuðu að skortselja bréfin. 

Bæði atvikin undirstrika umfang og áhrif sem almennir fjárfestir geta haft á markaðsverð, sér í lagi eftir tilkomu verðbréfavettvanga án þóknana líkt og Robinhood og eToro. 

Í byrjun febrúar tvöfaldaðist gengi Dogecoin eftir að Elon Musk, stofnandi Tesla, kallaði hana „rafmynt fólksins“ á Twitter, að því er BBC greindi frá á sínum tíma.  

Stikkorð: Dogecoin