Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur lagt fram frumvarp til laga á Alþingi um að færð verði í lög um veitingastaði ákvæði sem leggja kvaðir á dyraverði.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að lögfest verði að dyraverðir þurfi að hafa náð 20 ára aldri. Einnig verður áskilið að dyraverðir megi ekki hafa gerst sekir um ofbeldis- og fíkniefnabrot á seinustu fimm árum, en samkvæmt reglugerð sem nú er í gildi er krafa um að þeir megi aldrei hafa gerst sekir um slík brot. Þá mun verða lögbundin skylda að dyraverðir sæki námskeið þar sem farið verði yfir atriði sem reynir á í starfi þeirra, eins og til dæmis áfengislög, hjálp í viðlögum, viðbrögð við óspektum og hvernig þeir geti greint neytendur ólöglegra fíkniefna frá þeim sem ekki hafa neytt þeirra eða neytendum löglegra fíkniefna.

Ástæða þótti til að færa ofangreint í lög í ljósi þess að reglugerðin sem áður kvað á um þessi atriði hafði ekki nægilega lagastoð.