Fyrirtækið Dýrfiskur ehf. áformar að hefja eldi á 8.000 tonnum af regnbogasilungi í innfjörðum Arnarfjarðar á Vestförðum. Annars vegar er stefnt að 4.000 tonna eldi í Borgarfirði og hins vegar 4.000 tonna eldi í Trostansfirði. Fyrirtækið hefur lagt fram tillögu að matsáætlun vegna þessa til Skipulagsstofnunar.

Samkvæmt tilkynningu frá stofnuninni geta allir skilað inn athugasemdum en frestur til þess rennur út þann 16. apríl. Stofnunin hefur óskað sérstaklega eftir umsögnum frá Ísafjarðarbæ, Vesturbyggð, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun, Minjastofnun Íslands, Orkustofnun, Samgöngustofu og Umhverfisstofnun. Stefnt er að því að ákvörðun Skipulagsstofnunar um tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun muni liggja fyrir 28. apríl.

Þess má geta að fyrirtækið Arnarlax er með leyfi fyrir 3.000 tonna laxeldi í Arnarfirði. Sjókvíar eru komnar á flot og mun Arnarlax taka á móti fyrstu eldisseiðunum í næsta mánuði.