Farsímaóðir Bretar kjósa fremur að kaupa sér nýjan iPhone 5s en þann ódýrari, 5c-týpuna, samkvæmt nýjustu sölutölum frá Kantar Worldpanel, sem heldur utan um upplýsingar um farsímasölu í Bretlandi. Fram kemur í umfjöllun tæknitímaritsins ZDnet að farsímaframleiðendur eigi undir högg að sækja í Evrópu um þessar mundir og er hún lakari en í fyrra. Öðru máli gegni hins vegar um snjallsímana frá Apple, sem virðist fara vel í neytendur.

ZDnet bendir á að stýrikerfi Apple í snjallsímum hafi verið með 20% markaðshlutdeild í fyrra. Það er nú komið niður í 15,8% enda hafi símum sem keyri á Windows-stýrikerfum vaxið ásmegin, ekki síst í Frakklandi og á Spáni.

ZDnet hefur eftir sérfræðingi hjá Kantar Worldpanel, að þótt dýrari gerðin af iPhone-símunum seljist betur en sú ódýrari þá seljist hún þokkalega í Bandaríkjunum og laði fleiri að vörum Apple sem notuðu raftæki frá öðrum framleiðendum áður. Þetta segir hann gilda um helming þeirra sem áður notuðu vörur frá Samsung og LG.