Viðar Þorkelsson,forstjóri Valitor, hefur leitt fyrirtækið í gegnum miklar breytingar frá því að hann tók við stjórnartaumunum árið 2010. Fyrirtækið vaxið að meðaltali um 30% ár hvert frá árinu 2012 og virðist ekki sjá fyrir endann á vexti félagsins erlendis þar sem Valitor hefur háleit markmið. Viðar segir sterkt gengi krónunnar að undanförnu í bland við háan launakostnað þó setja strik í reikninginn fyrir fyrirtækið sem sjái sig í auknum mæli knúið til að færa starfsemi sína úr landi.

„Okkar tekjur eru hátt í 70% erlendis og stór hluti af því er í Bretlandi. Í fyrra byrjaði krónan að styrkjast og hefur síðan þá styrkst gríðarlega mikið á stuttum tíma. Á sama tíma kusu Bretar sig út úr Evrópusambandinu sem hafði þau áhrif að pundið fór að veikjast. Það hafa því orðið ýmsar snöggar breytingar í ytra umhverfi fyrirtækisins sem hafa reynst krefjandi viðureignar.

Eins og staðan er í dag þá finnst mér ólíklegt að við séum með forsendur til að bæta við okkur miklu af starfsfólki hér á Íslandi því það er einfaldlega orðið of dýrt en á sama tíma og krónan hefur verið að styrkjast svona mikið þá hafa laun verið að hækka umtalsvert. Ástandið er farið að hafa áhrif á afkomu okkar sem og samkeppnishæfni okkar erlendis, því þó að allir geri sér ekki grein fyrir því þá er Valitor útflutningsfyrirtæki, við erum að flytja út íslenskt hugvit. Þess vegna erum við farin að horfa meira og meiratil útlanda þegar kemur að fjölgun starfa auk þess sem það er auðvitað skynsamlegt að vera með kostnað í sömu mynt og tekjurnar og ráða því t.d. breskt fólk þar sem launakostnaðurinn er í breskum pundum,“ segir Viðar.

Ástand sem kemur í veg fyrir fjölgun starfa á Íslandi

Nú er ekki margt sem bendir til þess að krónan muni veikjast á næstunni auk þess sem óstöðugleiki virðist einkenna breskt þjóðfélag um þessar mundir, eru krefjandi tímar fram undan fyrir Valitor?

„Já, þetta er allavega áskorun sem við þurfum að takast á við en ég er almennt mjög bjartsýnn fyrir hönd Valitor. Við erum náttúrlega ekki aðeins í þróun á breska markaðnum heldur látum við einnig til okkar taka á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. En þetta er vissulega áhyggjuefni og kemur í veg fyrir fjölgun starfa á Íslandi.“

Miðað við það sem þú ert að segja þá er ýmislegt sem mælir með því að þið eflið starfsemi ykkar í auknum mæli erlendis. Telur þú að það séu mörg fyrirtæki sem líti ástandið svipuðum augum og er það þín skoðun að stjórnvöld eigi á einhvern hátt að bregðast við styrkingu krónunnar?

„Já klárlega, það er alveg ljóst að það eru fleiri fyrirtæki í þessari stöðu. Við erum sérstaklega öflug þegar kemur að upplýsingatækni og að mínu mati má líta á hana sem fjórðu stoðina í hagkerfinu, til viðbótar við stóriðju, ferðaþjónustu og sjávarútveg. En þegar það er orðið svona miklu miklu dýrara að ráða fólk á Íslandi en erlendis þá vekur það mann til umhugsunar hvað sé best að gera. Þessu til viðbótar þá sjáum við það líka að ýmis lönd hafa tekið upp hvatakerfi til að laða til sín slíka starfsemi og mínu mati gætu íslensk stjórnvöld gert meira til að hlúa að þessari fjórðu stoð. Það hafa verið stigin ákveðin skref hvað þetta varðar á Íslandi en það þarf að gera miklu meira enda er það sérstaklega mikilvægt fyrir fjölbreytni á Íslandi að tryggja að upplýsingatæknifyrirtæki fái nauðsynlega athygli.

Þessum störfum fylgir yfirleitt meiri stöðugleiki samanborið við mörg önnur og við stöndum auk þess sem þjóð mjög framarlega á sviði upplýsingatækni. Þetta er mér mikið hjartans mál og ég tel að stjórnvöld verði að vinna kerfislega að þessum hlutum en láta þá ekki bara skeika að sköpuðu ef við viljum ekki hreinlega  missa okkar besta fólk úr landi.“

Viðtalið við Viðar má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.