Árið 2016 var nokkuð slæmt þegar litið er til náttúruhamfara á alheimsvísu. Til að mynda voru alvarlegir jarðskjálftar í Japan, flóð í Kína og ofsaveður sem gekk yfir Haítí. Heildarkostnaður vegna hamfaranna sem gengu yfir heiminn hefur verið áætlaður af þýska tryggingafyrirtækinu Munich RE, en samkvæmt tölum fyrirtækisins nemur kostnaður vegna þeirra 175 milljarða dollara. CNN greinir frá.

Kostnaðurinn vegna náttúruhamfara hefur ekki verið hærri í fjögur ár, en einungis 30 prósent af tapinu var tryggt - eða 50 milljarðar dollara. Dýrustu hamfarirnar ryðu yfir í Asíu, þar sem að eyðilegging vegna jarðskjálfta í Japan kostaði 31 milljarð dollara og flóð í Kína kostuðu 20 milljarða.

Haft er eftir Peter Höppe, yfirmanni greiningardeildar Munich RE, að veðurbreytingar vegna heimshlýnunar geta haft gífurleg áhrif og þetta sé birtingarmynd þess.

Samkvæmt tölum tryggingafyrirtækisins létust 8.700 manns vegna náttúruhamfara á árinu 2016, sem er þó talsvert færri en árið áður þegar 25.400 létust.