*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Innlent 23. febrúar 2019 11:05

Dýrkeyptur ofsi í neikvæðri umræðu

Neikvæð umfjöllun um leigu- og fasteignafélög hefur reynst félögunum dýrkeypt en fleiri bera kostnaðinn.

Kristján Torfi Einarsson
Ofsinn kemur niður á fjármagnskostnaði leigufélaga á íbúðamarkaði, minnkar þannig svigrúm þeirra til uppbyggingar nýrra íbúða og hefur áhrif til hækkunar á leiguverði.
Haraldur Guðjónsson

Mikill styr stendur nú um leigufélög og stór orð hafa fallið í umræðunni. Hvað sem segja má um ofsann eða réttmæti gagnrýninnar þá geta áhrifin verið mikil. Neikvæðni í garð leigufélaganna er náskyld deilum á vinnumarkaði sem nú eru harðari og pólitískari en þekkst hefur um áratugaskeið. Þegar áhrifa hennar er farið að gæta í skattastefnu og fjármálum hins opinbera er auðvelt að gera sér í hugarlund að deilan geti líka hreyft við íslenskum fagfjárfestum.

Flest stór leigu- og fasteignafélög eru skráð í Kauphöll Íslands þar sem stærstu fagfjárfestarnir eru lífeyrissjóðir með sterka og beina tengingu við aðila vinnumarkaðarins. Þegar ofsinn í umræðunni og harkan í kjaradeilunni á álíka hæðum og lesa mátti í fréttum vikunnar geta áhrifin reynst leigufélögunum dýr.

Hagfræðingurinn Ásgeir Jónsson benti á þetta í ummælum á Facebook-síðu sinni í vikunni. Neikvæð umræða geti komið niður á verðmyndun félaganna á hlutbréf a markaði og hækkað álag á skuldir. Færri og dýrari fjármögnunarleiðir geta aftur haft áhrif til hækkunar á leiguverði og dregið úr fjárfestingum í nýju húsnæði. Hvor tveggja væri þvert gegn hagsmunum bæði atvinnurekenda og launþega.

Hlutabréf leigufélaganna hafa átt erfitt uppdráttar í Kauphöllinni síðastliðið ár. Flest félögin hafa lækkað umtalsvert síðastliðna 12 mánuði; Reitir (-16%), Reginn (-16%) og Eik (-13%). Undantekningin er Heimavellir sem hefur lækkað óverulega (-1%) síðan það var fyrst skráð á markað fyrir tæpu ári síðan. Markaðsverðmæti félagsins er engu að síður langt undir væntingum hluthafa og næsta víst þykir að fyrirhuguð afskráning verði samþykkt á næsta aðalfundi félagsins. Flest leigufélög hafa birt ársreikninga fyrir síðasta ár og það er erfitt að festa fingur á ástæðuna fyrir lækkuninni í bókum félaganna, en öll státa þau sig af ágætri tekjuaukningu og góðum rekstrarhagnaði. Þá voru uppgjörin í takt við spár greinenda eða „aðeins örlítið yfir væntingum,“ að mati Snorra Jakobssonar hjá greiningadeild Capacent.

„Miðað við útreikninga okkar eru leigufélögin nú mjög ódýr, eins og sést vel þegar markaðsverðmæti þeirra er borið saman við bókfærðar eignir. Sér í lagi er þetta áberandi í tilfelli Heimavalla þar sem markaðsverðmæti félagsins er aðeins 60% af heildareignum félagsins,“ segir Snorri og bætir við: „Þetta er mikill viðsnúningur frá því sem var í upphafi árs 2017 en þá þótti okkur verðlagningin vera í hærri kantinum.“

Leigumarkaður með húsnæði á Íslandi var lengst af mjög lítil og rekstur stórra leigufélaga nær óþekktur þar til fyrir nokkrum árum. Reynsla Íslendinga af stórum og virkum leigumarkaði er því lítil og að einhverju leyti kann það að skýra vantraustið í garð leigufélaga og miklar sveiflur í verði hlutabréfa þeirra. „Árin 2014 og 2015 töldum við að leigufélögin væru mjög ódýr en þau hækkuðu hratt og voru tveimur árum seinna orðin mjög dýr að okkar mati. Núna erum við komin í heilan hring á ekki lengri tíma,“ segir Snorri.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, en aðrir geta skráð sig í áskrift hér.