Launþegi með 400 þúsund króna mánaðarlaun vinnur fyrstu tvo tíma vinnudagsins fyrir hið opinbera. Þá tekur við um hálftíma vinna fyrir lífeyri og það er ekki fyrr en undir hádegi sem einstaklingurinn byrjar að vinna fyrir sjálfan sig.

Hér er um að ræða hefðbundinn 8 klst. vinnudag og miðað við algeng gjöld, s.s. skatta, lífeyri og félagsgjöld.

Launþeginn heldur eftir um 68% launa sinna um hver mánaðamót en á þá að sjálfsögðu eftir að greiða virðisaukaskatt á allri keyptri vöru og þjónustu. Eftir því sem launin hækka því minna rennur hlutfallslega beint í vasa launþega.

Í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu eru tekin nokkur dæmi um skiptingu launa með tilliti til opinberra gjalda og annarra gjalda. Að sama skapi eru tekin dæmi af kostnaði atvinnurekenda vegna starfsmanna. Þannig er til dæmis tekið dæmi af einstaklingi með 400 þús. kr. í mánaðarlaun. Af þeirri fjárhæð renna rúm 25% tekna hans í tekjuskatt og útsvar og um 7% í lífeyrissparnað og stéttarfélag.

Af launum einstaklings með 250 þús. kr. í laun renna tæp 18% í skatta en í tilfelli einstaklings með 600 þús. kr. mánaðartekjur renna tæp 30% í skatta.

Það er ekki síður fróðlegt að skoða kostnað atvinnurekenda af hverjum starfsmanni. Þar sem heildarlaun starfsmanna nema 400 þús. kr., nemur heildarkostnaður atvinnurekandans rúmlega 470 þús. kr. Eins og gefur að skilja breytist þessi kostnaður eftir því hversu há laun launþeginn hefur. Launþegi með 250 þús. kr. í laun kostar vinnuveitandann um 295 þús. kr. á mánuði en einstaklingur með 600 þús. kr. á mánuði kostar vinnuveitandann tæpar 710 þús. kr.

Nánar er rýnt í launaseðilinn og þau margvíslegu gjöld sem leggjast bæði á vinnuveitendur og launþega í hverjum mánuði í Viðskiptablaðinu.