Árshlutareikningur Vodafone fyrir annan ársfjórðung var kynntur á fundi í höfuðstöðvum fyrirtækisins í dag. Hagnaður félagsins nam 210 milljónum króna og jókst lítillega frá sama tímabili í fyrra. Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone er nokkuð ánægður með uppgjörið. Ráðist hafi verið í mikilvægar fjárfestingar á tímabilinu, sem muni til lengri tíma hafa góð áhrif á tekjuöflun Vodafone til framtíðar.

Í árshlutareikningnum kemur fram að kostnaður við forstjóraskipti hjá fyrirtækinu hafi numið 53 milljónum króna. Stefán segist vona, í ljósi þess hversu dýrt er að skipta um forstjóra, en ekki síst stöðu sinnar vegna, að fyrirtækið muni ekki ráðast í breytingar á forstjóra á næstunni.

Þá segir Stefán fyrirtækið hafa unnið nokkra undirbúningsvinnu vegna hugsanlegrar málsóknar á hendur fyrirtækinu vegna upplýsingaleka Vodafone á síðasta ári. Hins vegar séu tilvikin misjöfn og taka verði á þeim þegar þar að kemur.

VB Sjónvarp ræddi við Stefán.