*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 29. nóvember 2017 18:18

„Of dýrt, offjármagnað og einsleitt“

Fyrrverandi forstjóri Kviku vill að ríkisbönkunum verði skipt upp fyrir einstaklinga annars vegar og fyrirtæki hins vegar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sigurður Atli Jónsson stjórnarformaður ILTA Investments og fyrrverandi forstjóri Kviku banka segir fjármálakerfið á Íslandi of dýrt, offjármagnað og einsleitt, að því er fram kemur í viðtali í Fréttablaðinu.

Árlegur rekstrarkostnaður stóru viðskiptabankanna þriggja nemur samanlagt um 90 milljörðum króna. Ef miðað er við sambærilega arðsemiskröfu eigin fjár líkt og á hinum Norðurlöndunum, eða 12,5%, þurfa íslensku bankarnir því að skila um 170 milljarða tekjum á ári.

Það jafngildir um 7% af landsframleiðslu á hverju ári. „Þetta getur ekki talist vera góð meðferð fjármuna,“ segir Sigurður Atli enda sem segi að í raun sé verið að starfrækja þrjá banka með eigin fé sem dugi fyrir fjóra banka. „Það er of mikið að svo stór hluti af landsframleiðslunni fari á hverju ári í að búa til rekstrargrundvöll fyrir þrjá viðskiptabanka sem nær eingöngu sinna innlendri starfsemi.“

Fengist hærra verð ef væru ekki jafneinsleitir

Sigurður segir að bankarnir séu allir nánast eins uppbyggðir og segir hann að þeir væru betri söluvara ef eignarhald ríkisins væri nýtt til að stokka upp og sundurgreina viðskiptalíkan Landsbankans og Íslandsbanka, ein eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hyggst komandi ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks draga úr eignarhaldi sínu á bönkunum sem og endurskoða fjármálakerfið frá grunni.

„Annar bankinn, til dæmis Landsbankinn, ætti þannig að sinna eingöngu viðskiptabankastarfsemi og leggja áherslu á greiðslumiðlun og grundvallarfjármögnun fyrir heimilin og atvinnulífið,“ segir Sigurður Atli sem bendir á að áhugi fjárfesta á bönkunum hafi verið minni hingað til en vonast hafi verið eftir.

„Hinn ríkisbankinn, sem væri þá Íslandsbanki, yrði hins vegar í auknum mæli fyrirtækjabanki sem sinni þörfum meðalstórra og stórra fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana. Áhersla verði þar lögð á samstarf og mögulega eignarhald með alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum.“