Í skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um árangur fjárveitinga í þjónustu við aldraða kemur fram að á Íslandi hafi hlutfall útgjalda til langtímaumönnunar af vergri landsframleiðslu (VLF) verið 1,7% árið 2019. Inni í þeirri tölu eru útgjöld til hjúkrunar- og dvalarheimila og heimaþjónustu á vegum hins opinbera. Meðaltalið innan OECD var 1,5%, en umtalsvert hærra á hinum Norðurlöndunum.

Þegar litið er á tölur yfir fjölda hjúkrunarrýma á stofnunum og spítölum árið 2019 sést að hér á landi eru 55,5 rými fyrir hverja þúsund í aldurshópnum 65 ára og eldri, sem er töluvert hærra en meðaltalið á meðal OECD landanna, sem er 45,6.

Þegar fjölda hjúkrunarrýma er deilt upp í prósentustuðulinn fyrir hlutfall útgjalda af VLF sést að Ísland er með mun meiri áherslu á stofnanaþjónustu í kerfinu en minni á heimaþjónustu. Á Íslandi fæst gildið 32,6 en til samanburðar er það10,5 í Danmörku. Ísland er því með þrefalt meiri áherslu á stofnanaþjónustu í kerfinu en Danmörk. Stofnanaþjónustan er dýrasti hluti þjónustunnar og því til mikils að vinna að draga úr eftirspurn eftir henni.

Fyrir hvert ár sem einstaklingur býr heima hjá sér og nýtir dagdvöl eða heimaþjónustu í stað þess að flytja á hjúkrunarheimili sparast að minnsta kosti 12 milljónir króna á hvern einstakling samkvæmt skýrslunni.

Dýrasta úrræðið er sjúkrahúsinnlögn en í skýrslunni kemur fram að lægra gildi árskostnaðar á mann sé 61 milljón króna. Legukostnaður á deild innan spítala er 47,5 milljónir og dvöl á hjúkrunarheimili 13,6 milljónir. Aftur á móti eru úrræðin dagdvöl og heimaþjónusta umtalsvert ódýrari kostur. Árskostnaður á mann í dagdvöl er tvær milljónir á ári, sem er tæplega sjö sinnum ódýrari en dvöl á hjúkrunarheimili. Heimaþjónustan er ein milljón á ári, eða 13 sinnum ódýrari.

Fréttin er hluti af
lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 22. september 2022.