Evrópski flugvéla- og vopnaframleiðslurisinn EADS hagnaðist um 285 milljónir evra (um 35 milljarðar ísl.króna) á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en félagið tapaði um 10 milljón evra á sama tíma í fyrra.

Fyrir ári síðan mátti helst rekja tap félagsins til seinagangs við afhendingu Airbus A380 breiðþotunnar en EADS er einn af stærstu eigendum Airbus. Þrátt fyrir að afhendingar séu nú á eftir áætlun hafa vélarnar selst vel og greinir Reuters fréttastofan frá því að gott gengi Airbus valdi nú hagnaði EADS.

Louis Gallois, forstjóri EADS segir niðurstöður uppgjörsins hvetjandi og segir að þrátt fyrir erfiðleika síðustu misseri sé rekstur félagsins á áætlun.