EADS móðurfélag Airbus er nú að hefja rannsóknarvinnu varðandi nýtingu þörunga til að framleiða þotueldsneyti. Munu þessar rannsóknir verða gerðar í samvinnu við Singapore government's Agency for Science, Technology and Research (ASTAR). Mun Astar á næstu 12 mánuðum gera rannsóknir í þá veru að breyta olíu úr þörungum í steinolíu sem hægt er að nota sem eldsneyti á þotur.

Tveir samstarfsaðilar Airbus, þ.e. JetBlue Airways og Interjet í Mexíkó hugðust hefja tilraunir með notkun lífræns eldsneytis á Airbus A320 þotur í byrjun þessa árs. Þeim áætlunum hefur nú verið frestað allavega fram til 2011 vegna ónógs framboðs af slíku eldsneyti.

Eins og greint var frá í úttekt í Viðskiptablaðinu 4. febrúar hefur flugfélagið Virgin staðið fyrir tilraunum á notkun steinolíu sem unnin er úr þörungum um nokkra hríð. Kom einnig fram í úttektinni að menn líta nú með auknum áhuga á þörunga til að búa til lífrænt eldsneyti. Ástæðurnar eru einkum tvær. Það er í fyrsta lagi margföld afkastageta þörunga til að framleiða olíu í samanburði við korn og aðrar ræktanlegar tegundir og í öðru lagi þurfa þörungar ekki dýrmætt ræktarland til að vaxa. EADS nefnir þetta einmitt sem meginrök fyrir því að veðja á þörunga til eldsneytisframleiðslu.

Yann Barbaux, talsmaður EADS segir að sem hönnuðir flugvéla þá beri þeim skylda til að fóstra tilraunir með lífrænt eldsneyti, jafnvel þó þeir eigi að öðru leyti enga aðild að eldsneytisiðnaðinum. Tilraunavinnan með  ASTAR er í beinu í framhaldi af samstarfssamningi sem undirritaður var í febrúar 2008.