Miðasala á tónleika hljómsveitarinnar The Eagles, sem fyrirhugað er að fari fram í nýju Laugardalshöllinni 9. júní næstkomandi, skiluðu hátt í 170 milljónum króna í miðasölutekjur. Upphaflega var boðið upp á 5.000 miða í forsölu og seldust þeir upp á 45 mínútum. Aðrir 5.000 miðar voru síðan settir í almenna sölu og seldust þeir upp á nokkrum dögum. 5.000 miðar voru seldir á A-svæði, sem kostaði 19.900 krónur, og jafn margir miðar á B-svæði, sem kostaði 14.900 krónur.

Nánast engir afslættir né boðsmiðar

Ísleifur B. Þórhallsson, framkvæmdastjóri atburðadeildar Senu, segir nánast enga afslætti né boðsmiða hafa verið í boði á tónleikana. „Það voru litlir hópaafslættir hér og þar en það var allt og sumt. Við sáum strax í forsölunni að það var miklu meiri eftirspurn eftir A-miðum. Þeir kláruðust samstundis. Um leið og það voru bara B-miðar eftir þá hægðist á sölunni. Það tók síðan helgina að klára að selja þá.“

Skilar miklu inn í hagkerfið

Að sögn Ísleifs munu tugir milljóna króna skila sér inn í íslenskt hagkerfi vegna tónleika Eagles. „Þetta er mjög atvinnuskapandi. Það eru 65 manns að koma til landsins með Eagles. Þeir þurfa að fljúga hingað, gista einhvers staðar og borða eitthvað. Þeir munu líka leigja mjög mikið af græjum af innlendum framleiðslufyrirtækjum. Við þurfum að útvega þeim 30-40 manna tækniáhöfn. Það verða síðan 70-80 manns starfandi í gæslu og akstri í nokkra daga. STEF fær fullt af peningum og miði.is fær góðan skerf. Þessir peningar fara því út um allt. Auðvitað tekur band eins og Eagles bróðurpartinn af þessu. Þeir eru búnir að byggja upp sitt fylgi á nokkrum áratugum. En það er heilmikið sem verður eftir á Íslandi. Tugir milljóna króna.“

Uppselt þýðir uppselt

Ekki stendur til að reyna að koma á fót öðrum tónleikum með Eagles þrátt fyrir gífurlega mikla eftirspurn. Ísleifur segir það einfaldlega ekki vera sniðugt. „Við erum að hugsa til lengri tíma í tónleikahaldi og það er ekkert voðalega sniðugt gagnvart markaðinum ef það er í raun aldrei uppselt. Við vorum búin að segja að það væri ekki möguleiki á aukatónleikum og það stendur. Uppselt þýðir uppselt.“