Breska lággjaldaflugfélagið EasyJet mun fljúga beint til bæði Manchester í Bretlandi og Edinborgar í Skotlandi. Þessar flugleiðir bætast við fast flug EasyJet á mili Keflavíkur og Lundúna, en því verður fljótlega fjölgað í 4 daga í viku.

Þetta var kynnt á blaðamannafundi hjá félaginu nú fyrir stundu. Nýju flugleiðirnar voru einnig kynntar í breskum fjölmiðum í morgun.

Flogið verður til Manchester og Edinborgar tvisvar í viku, hvor leið. Ekki er útilokað að félagið bæti við enn fleiri áfangastöðum, en forsvarsmenn EasyJet segjast veðja á að vinsældir Íslands sem ferðamannalands eigi enn eftir að aukast.

Flugið til Edinborgar hefst 14. mars og flug til Manchester 21. mars. Auk þessara nýju áfangastaða hefur félagið einnig aukið tíðni flugs til Lundúna, úr þremur ferðum í fjórar ferðir á viku. Næsta sumar verða því ferðir EasyJet til Íslands samtals 8 í hverri viku.

Í tilkynningu sem send var samhliða þessu kemur fram að meirihluti farþega hjá EasyJet hafa verið erlendir ferðamenn eða um 70% á meðan 30% þeirra hafa verið Íslendingar.