Lágfargjaldaflugfélagið easyJet reiknar með því að flytja um 250 þúsund farþega til og frá Íslandi á næsta ári. Um 70% farþeganna verða á leið til Íslands, segir Hugh Aitken, framkvæmdastjóri easyJet í Bretlandi, í samtali við Morgunblaðið í dag. Til samanburðar fóru 647 þúsund erlendir ferðamenn um Leifsstöð árið 2012.

EasyJet hóf að fljúgja til Íslands fyrir 18 mánuðum. Aitken segir að meðalsætanýting hafi verið um 90%. Flogið er frá Edinborg í Skotlandi, London og Manchester í Englandi og í næstu viku hefst flug frá ensku borginni Bristol og Basel í Sviss bætist í hópinn í apríl.