FL Group gjaldfærði 13 milljarða króna tap af stöðu sinni í bandaríska flugfélaginu AMR á þriðja ársfjórðungi og mun gjaldfæra 2 milljarða tap á fjórða ársfjórðingi. Tap félagsins af stöðunni er því um 15 milljarðar króna. Söluhagnaður FL Group af stöðu sinni í breska lágfargjaldaflugfélaginu easyJet nam 140 milljónum evra, eða rúmlega 12 milljörðum íslenskra króna á þá virði. Ljóst er að staðan í AMR hefur gert gott betur en að vega upp hagnaðinn af easyjet.

Rúmt ár er síðan FL Group byrjaði að byggja upp stöðu sína í AMR en félagið var um eitt og hálft ár inni í easyJet. Í upphafi árs hækkuðu bréf AMR verulega og var þá óinnleystur hagnaður upp á 10 milljarða króna reiknaður FL Group til tekna.Gengi hlutabréfa í AMR hefur lækkað umtalsvert síðan. FL Group segir í tilkynningu, að í lok þriðja ársfjórðungs var markaðsvirði hlutar FL Group í AMR um 31,2 milljarðar króna.