Breska lággjaldaflugfélagið EasyJet fær 75% afslátt af lendinga- og farþegagjöldum á Keflavíkurflugvelli í sumar og verða gjöldin alfarið felld niður í vetur, að því er Túristinn hefur eftir Friðþóri Eydal, talsmanni Isavia.

Er þetta vegna þess að EasyJet mun fljúga til og frá Luton-flugvelli og telst það ný leið. Ef flogið væri frá Gatwick, Stansted eða Heathrow hefði EasyJet ekki uppfyllt kröfur nýja afsláttarfyrirkomulagsins.

Í Túristanum er bent á að fyrirkomulagið var fyrst birt á heimasíðu Keflavíkurflugvallar í ársbyrjun, en EasyJet hafi greint frá áformum sínum um flug hingað til lands tveimur mánuðum fyrr. Þrátt fyrir það fær félagið að nýta sér afsláttinn.

Þá segir í frétt Túristans að vegna þess að ekki hafi verið flogið frá Keflavík til Stansted í fyrravetur ætti það félag sem fyrst tilkynnir um vetrarflug á þann flugvöll að geta nýtt sér afslætti Keflavíkurflugvallar.