Breska lággjaldaflugfélagið EasyJet hefur samið við evrópska flugvélaframleiðandann Airbus um kaup á 135 Airbus A320 vélum. Tilkynnt var um kaupin á flugsýningunni í París í morgun en listaverð pöntunarinnar er  um 11,5 milljarðar Bandaríkjadala. Vélarnar verða afhentar á árunum 2015 – 2022.

Flugfloti EasyJet er að mestu samansettur úr um 160 Airbus A319 vélum en ekkert félag er með jafn margar A319 vélar í notkun. Þá er félagið með um 50 Airbus A320 vélar í notkun.

Félagið átti fyrir pantaðar 50 A320 vélar og 100 A320neo vélar. A319 og A320 eru framleiddar á sömu framleiðslulínu. Í raun er talað um A320 línuna en hún er framleidd í fjórum stærðum sem markast af A318, A319, A320 og lengstu útgáfunni A321.

Í frétt Reuters kemur fram að EasyJet hafi valið A320 til að byggja framtíðarflota sinn á eftir að hafa átt í ítarlegum viðræðum við bæði Airbus og bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing.  Flugfloti EasyJet er einn sá yngsti í geiranum og verður það áfram með sama áframhaldi.

Carolyn McCall, forstjóri EasyJet, segir í samtali við Reuters að Airbus hafi einfaldlega boðið verð sem Boeing gat ekki keppt við. Hún sagði tilboð Airbus vera betra en það sem EasyJet fékk árið 2002 þegar félagið tók ákvörðun um að skipta Boeing 737 vélum út fyrir Airbus A319 og A320 vélar. Það má því lesa á milli línanna að EasyJet hafi fengið töluverðan afslátt af framtíðarflota sínum.

Auka umsvifin á Íslandi

EasyJet tilkynnti nýlega að félagið myndi ríflega tvöfalda starfsemi sína hér á landi. Að öllu óbreyttu verður EasyJet þá þriðja umsvifamesta flugfélagið hér á landi. EasyJet flýgur nú til Íslands frá þremur áfangastöðum, Lundúnum, Manchester og Edinborg sem bættist inn í leiðarkerfi félagsins í síðustu viku. Í tilkynningu frá félaginu í dag kemur fram að flogin verða 11 flug í viku allan ársins hring. EasyJet hóf að fljúga til Íslands fyrir ári síðan.

Vikulegum ferðum EasyJet til Lundúna mun fjölga úr fjórum í sex á viku frá með febrúar 2014. Áfram verða tvær ferðir á viku bæði til Edinborgar og Manchester, en frá og með febrúar 2014 fjölgar Manchester-flugunum í þrjú á viku. Þegar hefur verið opnað fyrir sölu miða í öll flug næstu 12 mánuði á heimasíðu félagsins.

Airbus A320 vél í litum EasyJet.
Airbus A320 vél í litum EasyJet.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Airbus A320 vél í litum EasyJet.