Breska flugfélagið easyJet hefur samþykkt að kaupa 15 nýjar A320 vélar frá evrópska flugvélaframleiðandanum Airbus.

Þá hefur félagið jafnframt óskað eftir því að breyta pöntunum á 20 A319 vélum í A320.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Airbus en easyJet er nú orðinn stærsti viðskiptavinur A320 „fjölskyldunnar“ sem samanstendur af A318, A319, A320 og A321.

Greiningaraðilar í Evrópu segja að samningurinn hljóði upp á um 1,1 milljarð Bandaríkjadala.

easyJet var stofnað árið 1995 og notaði þá eingöngu Boeing 737 vélar, flestar af gerðinni 737-300. Enn eru 8 Boeing 737-700 vélar í eigu félagsins en til stendur að selja þær vélar á næstu árum þar sem félagið tók ákvörðun árið 2002 að nota eingöngu eina tegund flugvélar, Airbus A320.

Nú þegar eru 182 Airbus A320 vélar í flota easyJet.