Breska flugfélagið EasyJet hefur ákveðið að kaupa 56 Airbus A320neo flugvélar en kaupin eru hluti af samningi flugfélagsins við flugvélaframleiðandann Airbus árið 2013. Nema kaupin 6,25 milljörðum dala og mun afhending og greiðsla hefjast árið 2026. Reuters greinir frá.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir flugi í kjölfar afléttinga á ferðatakmörkunum vegna Covid-19 faraldursins en flugfélög eiga í fullu fangi með að mæta þeirri auknu eftirspurn. Þá standa flugvélaframleiðendur á borð við Airbus og Boeing einnig frammi fyrir þeirri áskorun að auka framleiðslu sína til að mæta aukinni eftirspurn eftir flugvélum.

Kaupin tryggja að flugfélagið geti skipt út eldri flugvélum fyrir skilvirkari vélar sem fela í sér kostnaðarlækkun fyrir félagið.