*

föstudagur, 24. september 2021
Erlent 9. september 2021 10:50

Easyjet sagði nei við Wizz

Stjórn easyjet hafnaði einróma yfirtökutilboði Wizz Air og ákvað þess í staðinn að ráðast í 1,7 milljarða dala fjármögnun.

Ritstjórn
Flugvélar easyJet á Keflavíkurflugvelli.

Flugfélagið easyjet hefur hafnað yfirtökutilboði frá samkeppnisaðila sínum Wizz Air. Easyjet ákvað þess í stað að ráðast í 1,7 milljarða dala fjármögnun. Hlutabréfaverð easyjey, sem er skráð í London kauphöllina, hefur lækkað um 9% í fyrstu viðskiptum dagsins.

Í tilkynningu vegna fjármögnunarinnar kemur fram að stjórn easyjet hafi verið einróma um að hafna viðræðum um yfirtöku. Félagið tók ekki fram hver lagði fram tilboðið en fjölmiðlar virðast vera einu máli um að Wizz Air hafi verið þar á bak við.

Forstjóri Easyjet, Johan Lundgren, sagði við fjölmiðla í gær að tilboðið hafi verið mjög skilyrt í eðli sínu og því hafi verið óljóst hvort hægt væri að framkvæma það án þess að gefa frekari upplýsingar um málið, samkvæmt frétt Reuters.

Easyjet sagði að fjármögnunin, sem felur í sér, 1,2 milljarða punda útgáfu áskriftarréttinda og 400 milljónir dala skuldaaukningu, muni gera félaginu kleift að nýta tækifæri í viðspyrnu evrópska flugmarkaðarins. Meðal annars felist það í að kaupa tímahólf (e. slots) á helstu áfangastöðum flugfélagsins.  

Stikkorð: Wizz Air easyjet