Flug á milli Lundúna og Íslands ná hámarki yfir vetrarmánuðina og þá sér í lagi í febrúar, þegar gefin eru vikufrí í breskum skólum. Hins vegar dregst úr umferðinni frá Bretlandi yfir sumarmánuðina. Til að mynda voru Bretar sem flugu frá Keflavíkurflugvelli 43 þúsund í febrúar, en alls voru þeir 51 þúsund í júní, júlí og ágúst. Lundúnir er sú borg sem langoftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í greiningu Túrista á Lundúnaflugi .

Upp til þessa hefur íslenska flugfélagið Icelandair staðið fyrir flestum ferðum milli Íslands og Lundúna og fóru þotur félagsins 23 ferðir í viku hverri til Heathtow og Gatwick þegar mest lét í vetur. Samkvæmt vetraráætlun Icelandair verður sama uppi á teningnum á þessu ári.

Forsvarsmenn breska lággjaldaflugfélagsins easyJet ætla hins vegar að bæta í Íslandsflugið frá Lundúnum og bjóða upp á 26 ferðir í viku en þær hafa verið 20 undanfarna mánuði. Með þessum viðbótarferðum easyJet verður að jafnaði flogið 73 sinnum í viku hverri frá Keflavíkurflugvelli til Lundúna en til samanburðar voru ferðirnar 19 í febrúar 2012.