Stelios Haji-Ioannou, stofnandi breska lággjaldaflugfélagsins easyJet, er ekki tilbúinn að selja félagið á núverandi gengi hlutabréfa félagsins.

"Ég mun ekki selja á núverandi gengi," sagði hann í samtali við blaðamenn á heimsviðskiptaráðstefnunni, World Economic Forum, í Davos í Sviss. "Við teljum enn möguleika á hækkun gengi hlutabréfanna."

Gengi bréfa easyJet hefur hækkað um 80% á síðustu tólf mánuðum og er markaðvirði félagsins um 174 milljarðar króna.

FL Group hefur jafnt og þétt aukið hlut sinn í easyJet og nemur eignarhluturinn nú 16,2%. Getgátur um að FL Group geri tilraun til að taka yfir easyJet hafa ýtt undir hækkun gengi bréfa félagsins, segja sérfræðingar.

Stelios útilokar þó ekki að selja, en segir það mikilvægt hver kaupandinn sé. Stelios og fjölskylda ráða yfir 41% eignarhlut í easyJet. Sérfræðingar telja ómögulegt að taka yfir félagið án samþykkis Stelios og fjölskyldu.