Sænska fyrirtækið EasyPark hefur keypt bílastæðaþjónustuna Leggja og er þar með orðin nýjasta bílastæðaþjónusta landsins, auk þess að útvíkka þjónustu sína á alþjóðavísu en fyrirtækið veitir bílastæðalausnir víða í Evrópu. Hægt er að nota þjónustu EasyPark í yfir 1300 borgum í 18 löndum.

Leggja var stofnað árið 2008 af hugbúnaðarfyrirtækinu Stokki og var keypt af Já hf. árið 2017. Á næstu mánuðum munu notendur Leggja fá boð um skipta yfir í EasyPark appið, sem auðveldar nú þegar milljónum notenda að greiða fyrir bílastæði hvar sem er á fljótlegan og skilvirkan máta.

Fram að því finna notendur ekki fyrir neinni breytingu og virkar Leggja appið alveg eins og áður. Leggja appið mun einnig virka samhliða EasyPark appinu fyrstu mánuðina meðan skiptin ganga í gegn, til að tryggja áframhaldandi þjónustu við notendur.

Vilborg Helga Harðardóttir , forstjóri Já segir félagið stollt af Leggja. „Með kaupum EasyPark á Leggja verður viðskiptavinum boðið upp á að nýta sömu þjónustu víðar sem auðveldar landsmönnum að leggja í útlöndum og sömuleiðis ferðamönnum að leggja hérlendis,“ segir Vilborg Helga.

„EasyPark er leiðandi á þessu sviði með lausn og þjónustu í stöðugri þróun sem Íslendingar munu njóta góðs af. Þetta er því mjög spennandi breyting fyrir viðskiptavini Leggja.”

Johan Birgersson, forstjóri EasyPark segir að unnið hafi verið að kaupunum í töluverðan tíma og hann sé ánægður með að þau séu nú í höfn. „Kaupin á Leggja undirstrika öran vöxt EasyPark. Við erum staðráðin í að veita ökumönnum, rekstraraðilum bílastæða og sveitarfélögum á Íslandi sömu framúrskarandi þjónustu og EasyPark er löngu orðið þekkt fyrir um alla Evrópu”, segir hann.

EasyPark hefur þjónað bæði ökumönnum, fyrirtækjum, borgaryfirvöldum og rekstaraðilum bílastæða frá árinu 2001, og eru nú eins og áður segir nýttar í yfir 1.300 borgum í 18 löndum við alla umsýslu, skipulagningu og stjórnun bílastæða.

Munu íslenskir notendur fá aðgang að ýmiskonar snjalllausnum gegnum EasyPark appið, svo sem að skrá sig úr og í stæði í símanum og framlengja skráningu í stæði. Að auki býður EasyPark upp á þægilegt skráningarferli fyrir nýja notendur og notendavænt viðmót þegar skipta þarf á milli einka- og fyrirtækjaaðgangs.