Vogunarsjóðurinn Eaton Vance Management hefur bætt við hlut sinn í fjarskiptafélaginu Símanum og á nú 6,58% hlut. Fyrir átti sjóðurinn 4,46% eða 421.371.404 hluti í félaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar .

Eaton Vance hefur aukið umsvif sín á Íslandi á síðustu misserum. Í gær var tilkynnt um að Eaton Vance eigi nú meira en 5% hlut í smásölufyrirtækinu Högum. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um aukin umsvif erlendra sjóða hér á Íslandi kemur fram að þá hafi sjóðir á vegum Eaton Vance átt hlutafé í íslenskum félögum fyrir að minnsta kosti 15 milljarða króna í níu félögum. Það er nærri tvöföldun frá afnámi hafta og þá er ekki meðtalinn mögulegur hlutur þeirra í Icelandair, sem gæti hæglega numið hundruðum milljóna króna eða meira. Nýverið tæplega þrefaldaði sjóðurinn hlut sinn í tryggingafélaginu VÍS þegar einn af stærstu eigendunum, Grandier ehf., seldi allan hlut sinn. Á hann nú 8,7% hlut í VÍS og er nú næst stærsti hluthafinn á eftir Lífeyrissjóði verzlunarmanna.