Fjármálaeftirlitið hefur náð samkomulagi við Eaton Vance um að sjóðurinn greiði 14,6 milljónir króna í sekt. Frá þessu er greint á vef FME .

„Málsaðili viðurkennir að hafa brotið gegn 1. mgr. 86. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, hér eftir vvl., með því að hafa í sex skipti látið fyrirfarast að tilkynna um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar (flöggun) innan lögboðinna tímamarka," segir í gagnsæistilkynningu frá FME.

„Málsaðili fellst á að greiða sekt að fjárhæð 14.600.000 krónur. Málsaðili staðfestir að hann hafi upplýst að fullu um málsatvik sem samkomulag þetta varðar. Þá hefur málsaðili gripið til ráðstafana til að stuðla að því að atvik sem þessi eigi sér ekki stað á ný."

Samkomulagið er bindandi fyrir málsaðila og Fjármálaeftirlitið þegar báðir aðilar hafa samþykkt og staðfest efni þess með undirskrift sinni. Við greiðslu sektarfjárhæðar er málinu lokið.