eBay hefur bannað sölu á Suðurríkjafánanum og öllum varningi þar sem fánanum bregður fyrir.

„Við höfum tekið ákvörðun um að banna Suðurríkjafánann og fjölda hluta sem bera hann á sér, því við stöndum í þeirri trú að hann tákni sundurlyndi og kynþáttafordóma," er haft eftir Johnna Hoff, talsmanns eBay, í tölvupósti til fréttastofu CNN. „Ákvörðunin er í samræmi við stefnu okkar um að banna hluti sem ýta undir hatur, ofbeldi eða kynþáttafordóma," segir hún jafnframt.

Fáninn, einkum notkun hans við opinberar byggingar í Suðurríkjunum, hefur sætt harðri gagnrýni í kjölfar skotárásarinnar í Charleston í Suður-Karólínu. Níu þeldökkir Bandaríkjamenn létu lífið í árásinni. Nikki Haley, ríkisstjóri Suður-Karólínu, hefur farið fram á að Suðurríkjafáninn verði tekinn niður við ráðhús fylkisins.

Vörur með Suðurríkjafánanum fást í vefverslun Amazon.