Raddir þess efnis að evrópska net-símafyrirtækið Skype verði yfirtekið gerast sífellt háværari, segir í Financial Times. Skype gerir lítið úr orðrómnum og vill ekki tjá sig um nýlega skýrslu þar sem fram kemur að Ebay hafi bæst í hóp vonbiðlanna og bjóði allt að 5 milljarða dala fyrir pakkann.

Um málið er fjallað í frétt Viðskiptablaðsins í dag. Þrátt fyrir að Skype gerir lítið úr yfirtökutali lifir orðrómurinn góðu lífi, skýringar má meðal annars finna í áhuga manna á mjög blómlegri tækni fyrirtækisins. Notendur Skype eru skrefi framar í samskiptum sínum við umheiminn. Hafi þeir aðgang að tölvu með nettengingu og símaútbúnaði sem tendur er við tölvuna geta þeir hringt hvert á land sem er, nær oftast sér að kostnaðarlausu, að minnsta kosti fyrir mun minna verð en hefðbundin símafyrirtæki bjóða fyrir sömu þjónustu.

Áhugi á þessari nýju tækni sem kölluð hefur verið "voice over internet protocol" jókst til muna nýverið er leitarfyrirtækið Google tilkynnti að það ætlaði út í samskonar þjónustu. Rótgrónum símafyrirtækjum stafar veruleg ógn af þessari nýju tækni sem fólk getur nýtt sér hafi það tölvu- og netaðgang.

Ebay hefur ekkert viljað staðfesta varðandi kauptilboðið en um það var fjallað í New York Post. Enn fleiri fyrirtæki hafa verið orðuð við Skype, þar á meðal News Corp sem var talið vilja kaupa Skype fyrir 3 milljarða dala. Eins hefur Hutchison símafyrirtækið verið inni í myndinni, sagði FT að þeir hefðu haft áhuga á að kaupa 5% hlut í Skype. Þrátt fyrir að Hutchison neiti öllu má benda á að símafyrirtækið tengist TOM Online, kínversku internet- og almannatengsla félagi, á mánudaginn var upplýst um nýjan samstarfssamning þess við Skype.

Skype var stofnað fyrir tveimur árum af 39 ára gömlum Svía, Niklas Zennstrom og 29 ára gömlum Dana, Janus Friis. Notendur Skype eru um 51 milljón talsins víðsvegar um heim en aðeins um 10% þeirra teljast til viðskiptavina sem borga í raun og veru fyrir þjónustuna. Heildartekjur Skype eru um 100 milljónir dollara árlega. Um og yfir 200 manns starfa hjá félaginu en það nýtur stuðnings Bessemer Venture Partners, Draper Fisher Jurvetson, Index Ventures og Mangrove Capital Partners.