Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að ráða Ebbu Schram hrl.  í stöðu embættis borgarlögmanns. Ebba hefur frá árinu 2007 starfað sem lögmaður hjá embætti borgarlögmanns, að undanskildum tveimur árum er hún starfaði sem lögmaður á lögmannstofunni LEX. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Frá árinu 2013 hefur Ebba gegnt starfi staðgengils borgarlögmanns.  Ebba hefur rúmlega átta ára reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar. Verkefni hennar hafa verið fjölbreytt og snert mörg réttarsvið. Hún hefur m.a. sinnt lögfræðilegri ráðgjöf til borgarstjórnar, borgarráðs, fagráða, stjórnenda, starfsmanna og lögfræðinga á fagsviðum borgarinnar. Að teknu tilliti til menntunar og reynslu sem metin var af fyrirliggjandi umsóknargögnum, í starfsviðtölum og með öflun umsagna var Ebba Schram metin hæfasti umsækjandinn í starf borgarlögmanns.