*

þriðjudagur, 22. september 2020
Fólk 10. september 2020 12:35

Ebenezer til Digido

Digido hefur ráðið Ebenezer Þórarinn Einarsson frá Íslandshótelum í starf sérfræðings í gagnadrifinni markaðssetningu.

Ritstjórn
Ebenezer Þórarinn Einarsson starfaði áður hjá Íslandshótelum en hefur nú gengið til liðs við Digido.
Aðsend mynd

Ebenezer Þórarinn Einarsson hefur verið ráðinn til Digido sem sérfræðingur í gagnadrifinni markaðssetningu. Ebenezer mun vinna með viðskiptavinum Digido í stafrænni vegferð þeirra í net- og markaðsmálum auk þess sem hann mun taka þátt í stefnumótun Digido.

Ebenezer starfaði áður sem vef- og samfélagsmiðlastjóri hjá Íslandshótelum þar sem hans helstu verkefni voru vefþróun, vefgreining, leitavélabestun, markaðssetning á samfélagsmiðlum, textagerð og yfirumsjón stafrænnar miðlunar á markaðsefni. Ebenezer er með B.S gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.

„Ég hef brennandi áhuga á árangurs- og gagnadrifinni markaðssetningu og því er það mjög mikill heiður að vera orðinn hluti af Digido fjölskyldunni. Innan fyrirtækisins býr mikil þekking og reynsla í stafrænum markaðsmálum og ég vil taka þátt í því að gera Digido að leiðandi fyrirtæki á því sviði. Ég er spenntur fyrir komandi tímum og hlakka til að takast á við þau verkefni sem eru framundan með samstarfsaðilum okkar” segir Ebenezer.

Andri Már Kristinsson, annar stofnenda Digido er ánægður með að fá Ebeneser í hópinn.

„Ebenezer hefur mikla reynslu og þekkingu á vef- og markaðsmálum sem mun nýtast Digido og samstarfsaðilum vel. Aukin áhersla er á meðal íslenskra fyrirtækja við að taka upplýstari ákvarðanir í markaðsmálum með hjálp gagna og mun Ebenezer bætast í hóp sérfræðinga Digido og hjálpa fyrirtækjum að ná betri árangri“ segir Andri Már.

Digido var stofnað í september 2018 og starfa þar fimm sérfræðingar. Digido hjálpar fyrirtækjum að ná betri árangri í markaðsstarfi með nýtingu gagna, auknum sýnileika á leitarvélum, skilvirkari vefauglýsingum og vefmælingum. Meðal viðskiptavina Digido eru Arion banki, Domino’s, Origo og N1.