Guðmundur Bjarnason, stjórnarformaður Eignarhaldsfélagsins Bruna-bótafélags Íslands (EBÍ), afhenti í dag Magnúsi Péturssyni, forstjóra Landspítala, 5 milljónir króna til kaupa á tækjum sem tengjast meðferð alvarlegra brunaáverka á börnum.  Stjórn EBÍ gefur spítalanum þessa fjármuni í tilefni af því að í ár eru 90 ár liðin frá stofnun Brunabótafélags Íslands. Þegar hefur verið ákveðið að kaupa tiltekin tæki fyrir peningana til að nota á svæfingar-, gjörgæslu- og skurðdeildum Landspítala. Slík tæki eru ekki til þar nú en eru að sjálfsögðu afar vel þegin svo meðferð brunaáverka geti verið sem best.

Magnús Pétursson tók við gjöfinni á Landspítala í Fossvogi og færði gefendunum innilegar þakkir fyrir velvild í garð sjúkrahússins og þeirrar þjónustu sem þar væri veitt.  Guðmundur Bjarnason sagði að líta bæri á gjöfina sem viðurkenningu og þakklætisvott fyrir allt það góða starf sem unnið væri á Landspítala í þágu landsmanna allra. Stuðningurinn væri auk þess í anda þeirrar stefnu EBÍ að sinna forvarnarverkefnum tengdum upphaflegri starfsemi Brunabótafélagsins. Þannig hefði EBÍ beitt sér fyrir eldvörnum og fræðslu þar að lútandi á leikskólum um allt land og styrkt Landssamband slökkviliðsmanna til að standa straum af árlegri eldvarnaviku í skólum landsins, svo dæmi væru tekin.