Smásölufyrirtækið Festi, móðurfélag N1, Krónunnar og Elko, hagnaðist um 2,3 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 1,2 milljarða á sama tíma árið áður. Velta félagsins jókst um 15,4% á milli ára og nam 27,1 milljarði. Framlegð af vöru- og þjónustusölu jókst um 18,8% frá fyrra ári og nam 6,9 milljörðum. Þetta kemur fram í uppgjöri sem félagið birti eftir lokun markaða í dag.

Rekstrarhagnaður Festar fyrir afskriftir (EBITDA) nam 3.346 milljónum króna á þriðja fjórðungi samanborið við 2.586 milljónir og hækkaði því um 29,3%.

Eigið fé í lok september nam 31,7 milljörðum og eiginfjárhlutfall 36,6% samanborið við 35,7% í lok árs 2020. Nettó vaxtaberandi skuldir án leiguskuldbindinga lækkuðu um 4,5 milljarða frá áramótum og námu 25,4 milljörðum í lok fjórðungsins.

Afkoma dótturfélaga eykst verulega

Velta Krónunnar nam um 35 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins sem er um 13% aukning frá fyrra ári. EBITDA hagnaður matvöruverslunarinnar jókst um 40% á milli ára, eða úr 2,2 milljörðum í nærri 3,1 milljarð. Hagnaður Krónunnar nam 1,3 samanborið við 584 milljónir á þriðja fjórðungi 2020.

Velta olíufyrirtækisins N1 jókst um nærri 17% á milli ára og nam 27,5 milljörðum. EBTIDA hagnaður N1 fór úr 2,4 milljörðum í 3,1 milljarð og jókst því um 30,4% á milli ára. Olíufyrirtækið hagnaðist um 446 milljónir eftir skatta samanborið við 29 milljónir árið áður.

Veltuaukning Elko nam 20% en velta raftækjaverslunarinnar nam 10,6 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins. EBITDA hagnaður Elko jókst um 45% á milli ára og nam 1,1 milljarði króna. Hagnaður raftækjaverslunarinnar eftir skatta nam 567 milljónum samanborið við 130 milljónir á fyrstu níu mánuðum 2019. Festi tilkynnti í gær að framkvæmdastjórinn Gestur Hjaltason hafi óskað eftir að láta af störfum og að Óttar Örn Sigurbergsson mun taka við starfinu í byrjun næsta árs.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar:

„Áherslur okkar á bættan rekstur er áfram að skila sér á þriðja ársfjórðungi þar sem tekjur aukast um 15% en EBITDA um 29% miðað við sama tíma í fyrra. Reksturinn hjá öllum félögum samstæðunnar var umtalsvert betri en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir.  Mikil vinna liggur hér að baki og vill ég nota tækifærið og þakka starfsmönnum fyrir þeirra frábæra starf.

Áherslur hafa einnig verið á að auka enn við þjónustu og góða upplifun viðskiptavina með fjárfestingum í stafrænum lausnum.  Nýjasta birtingarmynd þeirrar vegferðar er „Skannað og skundað“ lausn Krónunnar sem gerir viðskiptavinum kleift að nota farsímann við innkaupin í verslunum félagsins. Nýjar vefverslanir ELKO og N1 hafa einnig farið í loftið á árinu með aukinni þjónustu við viðskiptavini okkar.

Áhrif COVID faraldursins gætti enn á ársfjórðungnum þó þau verði sífellt minni.  Aukin eftirspurn á heimsmarkaði ásamt hnökrum í mikilvægum aðfangakeðjum hefur leitt til vöruskorts og hækkandi vöruverðs á síðustu misserum.  Horfur í rekstrinum eru þó áfram mjög góðar og er félagið vel í stakk búið til að takast á við verkefnin framundan.“