EBITDA hagnaður Bakkavör Group á öðrum ársfjórðungi nam 37,3 milljónum sterlingspunda eftir skatta og fjármagnsliði, samanborið 35,3 milljónir punda á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu en hagnaður á hvern hlut nam 1,2 pens, samanborið við 1,1 pens á sama tíma í fyrra.

Hagnaðurinn eykst því um 5,7% milli ára. Þá hagnaðist félagið um 26,4 milljónum punda fyrir skatta og , samanborið við tap að fjárhæð 23,5 milljónir punda á sama tíma í fyrra.

Sé litið til hagnaðar eftir skatta og fjármagnsliði nemur viðsnúningurinn um 50 milljón punda milli ára.

Handbært fé frá rekstri fyrir skatta, vexti og einskiptiskostnað vegna hagræðingaraðgerða nemur 46,4 milljónum punda á öðrum ársfjórðungi sem er 76% aukning samanborið við sama tímabil í fyrra

Í tilkynningunni kemur fram að gert er ráð fyrir áframhaldandi rekstrarbata á þriðja fjórðungi ársins og gera stjórnendur nú ráð fyrir 25% aukningu EBITDA á tímabilinu. Jafnframt gerir EBITDA  áætlun fyrir árið ráð fyrir 20% framlegðaraukningu, að framlegð verði (130 milljónir punda á árinu.

„EBITDA hagnaður félagsins hefur aukist töluvert undanfarið, en eins og áætlanir okkar gerðu ráð fyrir þegar við birtum uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung í maí síðastliðnum eru hagræðingaraðgerðir sem félagið hefur ráðist í farnar að skila töluvert bættum rekstrarárangri,“ segir Ágúst Guðmundsson, forstjóri í tilkynningunni.

„Sjóðstreymi hefur einnig styrkst verulega með aukinni hagkvæmni í rekstri, bættri arðsemi og stýringu veltufjármuna. Við gerum ráð fyrir að sjóðstreymi félagsins haldi áfram að styrkjast á seinni hluta ársins þegar árangur hagræðingaraðgerðanna kemur betur í ljós. Sala félagsins á ferskum tilbúnum matvælum í Bretlandi heldur áfram að aukast og jókst sala tilbúinna rétta, einum af lykilvöruflokkum Bakkavarar, um 10% á tímabilinu. Er þetta til marks um sterka stöðu félagsins og hæfni til að aðlaga framleiðslu að breyttri neysluhegðun.“

Þá kemur fram að samningaviðræður við helstu lánveitendur móðurfélagsins á Íslandi um endurfjármögnun skulda eru komnar vel á veg.

„Góður gangur er í viðræðunum og vonumst við til að geta tilkynnt um niðurstöður viðræðna innan skamms. Þessar viðræður fylgja í kjölfar samninga um endurfjármögnun allra rekstrarfélaga samstæðunnar í mars síðastliðnum, sem tryggir þeim rekstrarfjármögnun næstu þrjú árin,“ segir Ágúst.

Þjónar hagsmunum hluthafa og félagsins að afskrá félagið

Þá sendi félagið frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að stjórn félagsins hefur í dag ákveðið að óska eftir afskráningu hlutabréfa félagsins í Kauphöllinni. Skuldabréf félagsins verða þó áfram skráð á markaði.

„Eigendur 44% hlutafjár styðja þessa ákvörðun um afskráningu hlutabréfanna,“ segir í tilkynningunni.

„Þessi ákvörðun er byggð á mati stjórnarinnar á núverandi stöðu íslensks hlutabréfamarkaðar og óvissu með þróun hans, lítillar veltu með bréf félagsins auk þess sem að innlendur banki ákvað nýlega að hætta viðskiptavakt með bréf félagsins. Jafnframt fylgir mikill kostnaður skráningu bréfanna. Stjórnin telur því að það þjóni hagsmunum hluthafa og félagsins að afskrá félagið.“

Þá kemur fram að stjórnin mun óska þess að bréfin verði afskráð hið fyrsta en væntanleg afskráning hefur ekki áhrif á starfsemi félagsins og eignarhald þess er óbreytt.