Rekstrarhagnaður Kögunar á fyrsta ársfjórðungi fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) nemur samtals 439 milljónum króna sem er 30% aukning frá sama tímabili í fyrra og er það í samræmi við áætlanir félagsins, segir í tilkynningu. Hafa þarf í huga að fleiri fyrirtæki mynda nú samstæðu Kögunar en áður.

Gengistap varð vegna vaxtaskiptasamnings sem gerður var árið 2005 að upphæð 316 milljónir króna. Tap félagsins fyrir skatta nam 120 milljónum króna og tap eftir skatta nam 100 milljónir króna.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu samtals 5.595 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2006. Veltuaukning er 1.474 milljónir króna eða 35,8% milli ára.

Rekstrargjöld námu samtals 5.155 milljónir króna en þau voru 3.784 milljónir á sama tímabili árið 2005.

Eigið fé Kögunar í lok mars 2006 er 6.866 milljónir króna en eigið fé í árslok 2005 nam 6.330 milljónum króna.