Hagnaður Össurar á fyrsta ársfjórðungi fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA), að undanskildum einskiptiskostnaði, var 11,6 milljónir dala (757 milljónir íslenskra króna*) og jókst um 110% frá sama tímabili fyrir ári, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

EBITDA hlutfall, að undanskildum einskiptiskostnaði, var 19,3% samanborið við 17,8% á fyrsta ársfjórðungi 2005

Hagnaður, að undanskildum einskiptiskostnaði og afskriftum óefnislegra eigna, var 4,1 milljónir dala (267,6 milljónir íslenskra króna*) og hækkaði um 30% milli ára.

Hagnaður tímabilsins án leiðréttingar fyrir einskiptiskostnaði og niðurfærslu óefnislegra eigna var 571 þúsund dalir (37 milljónir króna) en var 3.173 þúsund dalir (206 milljónir króna) á sama tíma fyrir ári

Sala fyrirtækisins á tímabilinu var 60 milljónir Bandaríkjadala (3,9 milljarðar íslenskra króna*) og jókst um 93% mælt Bandaríkjadölum. Söluaukning vegna innri vaxtar var 12%

?Ég er sáttur við þessa niðurstöðu. Hún er í efri mörkum þess sem stjórnendur fyrirtækisins gerðu ráð fyrir, þó svo að einskiptiskostnaður vegna fyrirtækjakaupa setji mark sitt á uppgjörið. Samþætting og endurskipulagning gengur samkvæmt áætlun og fyrstu samlegðaráhrifa er farið að gæta, þó svo að þau muni fyrst hafa veruleg áhrif árið 2007," segir Jón Sigurðsson forstjóri í tilkynningu, þar segir hann einnig:

?Við stefnum ótrauð að þeirri framtíðarsýn okkar að verða í sama forystuhlutverki á sviði stuðningstækja og við höfum þegar náð á sviði stoðtækja. Við náðum metnaðarfullum innri vexti á sviði stoðtækja á sama tíma og við höfum verið að byggja upp markaðshlutdeild í spelku- og stuðningsvörugeiranum sem vegur nú yfir 50% af heildarsölu okkar."

* Samkvæmt reikningsskilareglum miðast umreikningur rekstrarliða milli gjaldmiðla við meðalgengi rekstrartímabils. Það er umreikninað úr Bandaríkjadölum yfir í íslenskar krónur fyrir fyrsta ársfjórðung er notað meðalgengi 65,26 ISK/USD. Við umreikning efnahagsliða er notað gengi í lok mars 70,87 ISK/USD.