Alþjóðabankinn áætlar nú að ebólufaraldurinn gæti kostað hagkerfin í Vestur-Afríku 32,6 milljarða Bandaríkjadala fyrir lok næsta árs, nema komið verði í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar. Bankinn segir að afleiðingarnar af faraldrinum verði hörmulegar fyrir efnahagslífið í löndunum sem verst hafa orðið úti.

Meira en 3.400 manns hafa látið lífið frá því að faraldurinn hófst, flestir í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne. Í fyrradag lést fyrsti Bandaríkjamaðurinn af völdum veirunnar og hræðsla hefur gripið um sig á Spáni eftir að hjúkrunarfræðingur greindist þar.