Martin Kazaks, seðlabankastjóri Lettlands og fulltrúi landsins í stjórn Evrópska seðlabankans (ECB), segir ECB eiga að íhuga meiri vaxtahækkun en fyrirhuguð er í júlí fyrst vísbendingar eru um að háar verðbólgumælingar séu að ýta undir væntingar.

Hann sagði bankann eiga að fylgjast með því hvað sé að gerast á vinnumarkaði og hver staðan sé á kjölfestu verðbólguvæntinga. Þá vildi hann ekki svara vangaveltum um hvort breytingar á fyrrgreindum þáttum gætu réttlætt 50 punkta hækkun.

Í kjölfar ummæla Kazaks fóru peningamarkaðir að veðja á 163 punkta hækkun á þessu ári í stað þeirrar 158 punkta hækkunar sem búist var við fram að því.

Hækkandi fjármagnskostnaður, sem valdið hefur ótta á meðal fjárfesta um endurtekningu skuldakreppunnar í álfunni, samferða hótunum Rússa um að hætta að selja orku til Evrópu hefur ýtt undir ótta um efnahagssamdrátt.

Kazaks sagði hækkandi verð bitna á neyslu, sem útiloki ekki samdrátt, en þrátt fyrir það sagðist hann telja að hægt væri að hækka vexti nokkuð hratt.