Húsnæðisverð á evrusvæðinu gæti lækkað ef vextir halda áfram að hækka til að sporna gegn verðbólgu. Þetta kemur fram í fjármálastöðugleikaskýrslu Evrópska seðlabankans sem gefin er út á hálfsárs fresti og fjallað er um á vef Financial Times.

Lækkun húsnæðisverðs er einn helsti áhættuþátturinn sem steðjar að evrópskum heimilum að mati bankans, en hann telur að verð á húsnæði sé nú þegar 15% yfirverðlagt miðað við undirliggjandi áhrifaþætti. Lækkun húsnæðisverðs myndi hafa mest áhrif á tekjulægri heimili. Húsnæðisverð á evrusvæðinu hækkaði um tíu prósent í fyrra, sem er mesta árshækkun í tvo áratugi, samkvæmt tölum frá Eurostat.

Innrás Rússa í Úkraínu er einnig sögð auka áhættu á gjaldþroti fyrirtækja vegna minnkandi hagvaxtar, hærri verðbólgu og aukins lántökukostnaðar.

Markaðsaðilar eiga von á því að ECB muni hækka stýrivexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi í júlí, en það yrði í fyrsta skipti í tíu ár sem vextir yrðu hækkaðir. Bankinn tekur fram að hækkun vaxta geti haft neikvæð áhrif á eignaverð á áhættusömum eignum.Þrátt fyrir að vaxtahækkunarferlið sé ekki hafið hafa vextir á húsnæðislánum hækkað úr 1,3% í september upp í 1,47% í mars.