Bernie Ecclestone, forstjóri og aðaleigandi Formúlu 1 keppninnar, hefur verið ákærður í Þýskalandi fyrir mútur. Er honum gefið að sök að hafa látið Gerhard Gribkowsky, fyrrverandi yfirmann áhættustjórnunar þýska bankans BayernLB, fá 44 milljónir dala, andvirði um 5,3 milljarða króna, í mútur. Í staðinn sá Gribkowsky til þess að bankinn seldi hlut sinn í Formúlunni til félagsins CVC Capital Partners.

Gribkowsky var í fyrra dæmdur fyrir sinn þátt í mútumálinu og hlaut átta og hálfs árs fangelsisdóm. Ecclestone hefur haldið því fram að ekki hafi verið um mútur að ræða, heldur fjárkúgun af hálfu Þjóðverjans. Hann hafi hótað því að láta bresk skattayfirvöld vita af sjálfseignarsjóði Ecclestone fjölskyldunnar, sem stýrt var af fyrrverandi eiginkonu Ecclestone.