Bandaríska fyrirtækið EcoMotors sem stofnað var 2008 tilkynnti á mánudag að það hafi tryggt sér 23,5 milljóna dollara til að ljúka prófunum á Opoc vél sinni. Fjármagnið kemur frá milljarðamæringnum og “mannvininum” Bill Gates og Khosla Ventures í Menlo Park í Kaliforníu sem er í eigu Indverjans Vinod Khosla sem stofnaði m.a. Sun Microsystems að því er greint er frá í The Detroit News.

Helmingi sparneytnari og léttari

Opoc mótorinn á að vera 50% sparneytnari en hefðbundnar vélar. Hann byggir á annarskonar uppsetningu og vinnslu á bullustrokkum og stimplum og verður helmingi léttbyggðari en mótorar sem gefa sama afl. Þá verða helmingi færri hlutir í þessum mótor en hefðbundnum vélum og hann verður því mun einfaldari og ódýrari í framleiðslu.

Mikilvægt skref

„EcoMotors hafa þróað áhugaverða tækni sem gæti hjálpað til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda á ódýran og hagkvæman hátt,” sagði Bill Gates í yfirlýsingu um málið. „Opoc vélin getur orðið mikilvægt skref til að koma upp mengunarlitlum samgöngum í þróunarríkjunum á viðráðanlegu verði.”

Hagkvæm í smíði

Vinod Khosla segir að Opec vélin hafi umhverfisvæna kosti án þess að það þurfi að leggja út í kostnaðarsama og viðamikla uppbyggingu til að smíða hana. Vinod Khosla er einn af stopfnendurm Sun Microsystems og setti á fót Khosla ventures fjárfestingasjóðinn árið 2004. Er þeim sjóði ætlað að styðja við bakið á frumkvöðlum sem vinna að umhverfisvænni tækni. Munu bæði Khosla og Bill Gates verða titlaðir sem sérstakir hluthafar í EcoMotors og fá B-hlutabréf í félaginu fyrir framlög sín.

Hönnuð af fyrrum yfirmanni hjá VW

Nýja vélin er hönnuð af Peter Hofbauer, stjórnarformanni EcoMotors og fyrrum yfirmanni vélaþróunarsviðs Volkswagen AG. Hofbauer hannaði m.a. háhraða dísilvélina sem var grunnurinn að Jetta hrein-dísil bílnum sem fékk Green Car of the Year verðlaunin árið 2009. Peter Hofbauer er tæknilegur yfirmaður EcoMotors en forstjóri er Don Runkle sem var yfirmaður þróunarsviðs General Motors í Norður Ameríku og vann m.a. að þróun EV1 rafbílnum.