Breska vikuritið The Economist skrifar um hinn skrýtna stöðugleika og stýrðu þróun íslenskrar tungu sem þeir kalla tungumál sem er hvort tveggja í senn fornaldarlegt og nútímalegt.

Greinin sem birtist á vef tímaritsins í dag birtist fyrst í sérstöku jólasérblaði tímaritsins undir fyrirsögninni ný brögð gamallar tungu. Þar er rætt um bæði sérstaka eiginleika íslenska tungumálsins og þær hættur sem að tungumálinu steðja.

Fjallað er um þróun tungumálsins og áhrif íslenskrar málnefndar sem og Íslendingasögurnar og orð til að mynda tékkneska skáldsins Milan Kundera um þær sem og áhuga J.R.R. Tolkien og W.H. Auden. Borin eru saman áhrif tungumálsins og skyldleiki við enska tungu með orðum sem oft hljóma mjög svipað, sem og tilraunir til að halda í íslenska málhefð með því að taka ekki upp í blindni erlend orð.

Rætt er við Paul Fontaine, blaðamann á Reykjavik Grapevine, Ara Pál Kristinsson, stjórnarformann íslenskrar málnefndar, Guðna Th. Jóhannesson forseta og konu hans Elizu Reid, Eirík Rögnvaldsson prófessor við háskóla Íslands sem og Stefanie Bade, doktorsnema við háskólann.