Framtakssjóðirnir Edda og Kjölfesta hafa ásamt meðfjárfestum aukið hlut sinn í Íslandshótelum hf. og eiga nú saman um 24% hlut í félaginu. Þetta kemur fram i tilkynningu.

Þar segir að fjárfestingin sé í formi þátttöku í hlutafjáraukningu Íslandshótela sem ætlað sé að styðja við enn frekari vaxtaáform félagsins.

„Viðskipti þessi munu styðja enn frekar við þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er hjá Íslandshótelum þar sem áhersla er lögð á aukin gæði um allt land,“ segir Ólafur D. Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, sem einnig á hlut í fyrirtækinu ásamt fjölskyldu.

Íslandshótel hf. er stærsta hótelkeðja landsins en félagið á og rekur 15 hótel um land allt.  Má þar nefna Grand Hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Centrum og Best Western Hótel Reykjavík ásamt 12 Fosshótelum um land allt. 

„Við erum mjög ánægð með að geta stutt  við vöxt Íslandshótela með viðbótar fjárfestingu.  Mikill áhugi fjárfesta á að taka þátt í fjárfestingunni staðfestir tækifærin sem felast í sí-auknum fjölda ferðamanna til landsins,” segir Margit Robertet, framkvæmdastjóri Eddu.