Framtakssjóðurinn Edda, sem rekinn er af verðbréfafyrirtækinu Virðingu, og Kjölfesta, sem einnig er rekinn af Virðingu í samstarfi við ALM Verðbréf, hafa keypt 15% hlut í Íslandshótelum hf. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Þessi viðskipti munu styðja vel við þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er á komandi árum hjá Íslandshótelum þar sem áhersla er lögð á aukin gæði um allt land,“ segir Ólafur D. Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela hf.

Íslandshótel eiga og reka 15 hótel um land allt. Má þar nefna Grand Hótel Reykjavík, 311 herbergja fjögurra stjörnu ráðstefnuhótel, Hótel Reykjavík Centrum, 89 herbergja fjögurra stjörnu hótel í miðbæ Reykjavíkur, Best Western Hótel Reykjavík ásamt Fosshótelunum sem munu telja 12 með opnun Fosshótel Reykjavík við Höfðatorg.

„Við erum mjög ánægð með að fá tækifæri til að taka þátt í áframhaldandi vexti Íslandshótela og um leið að fjárfesta í einni af mikilvægustu atvinnugrein landsins,“ segir Margit Robertet, framkvæmdastjóri Eddu.

Í júní á þessu ári opnar Fosshótel Reykjavík, fjögurra stjörnu hótel sem jafnframt verður það stærsta á landinu með 320 herbergi. Á síðasta ári opnaði Fosshótel Austfirðir á Fáskrúðsfirði í gamla franska spítalanum auk þess sem byggt var við Fosshótel Vatnajökul og herbergjum fjölgað um 40. Framkvæmdir hófust við Fosshótel Húsavík á síðasta ári en að þeim loknum mun hótelið bjóða upp á 114 herbergi ásamt ráðstefnu- og fundarsölum. Framkvæmdir eru einnig hafnar á Hnappavöllum við Öræfajökul en þar mun rísa nýtt fjögurra stjörnu 104 herbergja hótel, Fosshótel Jökulsárlón.