Edda Blumenstein tók við sem forstöðumaður Rannsóknarseturs Verslunarinnar 11. janúar síðastliðinn, en hún á einnig ráðgjafafyrirtækið beOmni, sem sérhæfir sig í ráðgjöf og stefnumótun fyrir íslensk verslunarfyrirtæki, auk þess sem hún er stjórnarformaður stafræns faghóps innan Samtaka verslunar og þjónustu.

Edda hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða um heildarupplifun viðskiptavina í verslun (Omni Channel), auk þess að skrifa kennsluefni um verslun fyri Circus Street. Áður var hún framkvæmdastjóri Smáratívolís, deildarstjóri markaðs og viðskiptaþróunar Icepharma og vörumerkjastjóri Coca-Cola Íslandi.

Edda er doktor frá Leeds University Business School í Retail Transformation, og varði hún doktorsritgerð sína í október á síðasta ári eftir fimm ára nám, en hún er jafnframt með meistaragráðu frá Leeds University Design School og B.Sc gráðu í alþjóðlegri markaðsfræði frá HR.