Edda Blumenstein hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Skemmtigarðsins í Smáralind. Edda tekur við að Eyþóri Guðjónssyni sem mun taka sæti í ráðgjafarráði Skemmtigarðsins. Eyþór hætti á föstudag í síðustu viku.

„Ég er mjög ánægð að fá þetta tækifæri á nýjum og spennandi vettvangi. Skemmtigarðurinn í Smáralind var opnaður fyrir rétt rúmu ári og hefur náð sterkri stöðu á tiltölulega stuttum tíma. Stefnan er að halda áfram á sömu braut enda eru mörg spennandi og skemmtileg tækifæri framundan,“ segir Edda.

Stutt er síðan Skemmtigarðurinn í Smáralind var valinn  „Besti innanhúss skemmtigarður heims 2012“ af IAAPA, sem eru alþjóðleg samtök Skemmtigarða.

Fram kemur í tilkynningu að Edda vann áður sem deildarstjóri markaðs- og viðskiptaþróunar Icepharma en þeirri stöðu hafði hún gegnt síðan í ársbyrjun 2008. Hún hefur einnig setið í framkvæmdastjórn Icepharma frá því 2008. Edda hafði yfirumsjón með stefnumótun og markaðsmálum fyrirtækisins en í því fólst m.a. yfirumsjón með greiningum, markaðsáætlanagerð og heildarnálgun markaðsherferða. Þá hafði hún yfirumsjón með markaðssetningu fyrirtækisins á netinu og notkun samfélagsmiðla. Á árunum 1999 - 2007 var Edda vörumerkjastjóri hjá Vífilfelli. Edda er með B.Sc. gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Tækniskóla Íslands (HR).