*

mánudagur, 11. nóvember 2019
Innlent 1. júní 2019 14:32

Edition hótelið frestast til vors

Fimm stjörnu hótelið sem rís við Hörpu og átti að opna fyrir ári verður væntanlega opnað fyrir næsta sumar.

Ritstjórn
Á þessum reit við Hörpu rís nú, hægar en áður var áætlað, nýtt fimm stjörnu Marriott Edition hótel.
Haraldur Guðjónsson

Nú er ljóst að fimm stjörnu Marriott Edition hótelið sem fyrst átti að opna fyrir um ári síðan en var síðan frestað til ársins í ár verður ekki opnað fyrr en næsta vor í fyrsta lagi.

Þetta kemur fram í viðtali við þá Richard L. Friedman forstjóra og aðaleiganda Carpenter & Company sem er fasteignaþróunarfélagið sem byggir hótelið og Daniel Flannery, framkvæmdastjóri Edition hótelanna í Fréttablaðinu í dag.

„Á Íslandi er vorið til 21. júní svo að ég er alveg rólegur,“ segir Richard aðspurður hvort allt verði klárt fyrir vorið en Daníel segir ekki einu sinni þá tímaáætlun ákveðna. „Við væntum þess í það minnsta að vera búin að opna fyrir næsta sumar, en við þurfum að sjá til.“

Jafnframt kemur fram að samningurinn um rekstur hótelsins virðist hafa verið framlengdur úr upphaflega 30 árum í 50 ár eins og Túristi bendir á. Í viðtalinu segir að ljóst sé að bygging hótelsins hafi farið nokkuð fram úr kostnaðaráætlunum, eða að minnsta kosti 9% í krónum talið, miðað við útreikninga á síðasta ári, og myndi því kosta 17,5 milljarða króna.

Fjallað var um það í fréttum fyrir rúmu ári að verðmiðinn gæti slagað í 20 milljarða, en ofan á krónutöluverðið kemur væntanlega töluverð hækkun á gengi íslensku krónunnar síðan áætlanir um byggingu hótelsins voru gerðar, þó eitthvað hafi dregið úr gengishækkuninni síðan.

Richard segir það þó ekki rétt sem fleygt hafi verið fram að byggingarkostnaður þess sé orðið það dýrasta í Evrópu. „Það eru falsfréttir,“ segir Richard en neitaði að segja hvað það myndi kosta, hann gæti það ekki út af bönkunum. „En það eru ekki milljón dollarar per herbergi, eins og einhverjir hafa sagt. Miklu minna.“

Þeir segjast ekki hafa áhyggjur af fækkun ferðamanna vegna falls Wow air, en þeir hafa jafnframt metnaðarfull markmið um uppbyggingu á heilsulind, klúbbi, veitingastað og þakbar.

„Marriott-meðlimaklúbburinn hefur 120 milljón meðlimi. Þeir eru allir að leita sér að áhugaverðum áfangastöðum,“ segir Daniel en Richard segir segir hótelið ekki skemma fyrir öðrum heldur einmitt þvert á móti hjálpa til við að fylla önnur hótel vegna samlegðaráhrifa.

„Við erum að fara eftir ferðamönnum sem hafa ekki verið a koma til Íslands. Við munum hafa mikið af stórum fundum og ráðstefnum, sem önnur hótel hafa ekki burði til sökum smæðar. Við ætlum að koma inn með nýja ferðamenn.“

Fleiri fréttir um uppbyggingu hótelsins og tengd málefni: