Ólíkt því sem gerist í Danmörku munu íslensk fyrirtæki sem ekki haga milliverðlagningu milli fyrirtækja í samræmi við lög geta lent í aukaálagningu eða refsingum af hálfu skattyfirvalda. Um síðustu áramót tóku gildi nýjar lagareglur varðandi verðlagningu í viðskiptum tengdra fyrirtækja, þ.e. móður- og dótturfélaga og systurfélaga, svokallaða milliverðlagningu.

Reglurnar eru byggðar á leiðbeiningum OECD frá árinu 1995, en þeim var ætlað að stemma stigu við þeirri viðleitni fyrirtækja að færa hagnað úr háskattalöndum til landa þar sem skattar eru lægri með málamyndagerningum milli tengdra fyrirtækja.

Aðeins þau fyrirtæki sem eru með rekstrartekjur eða heildareignir í upphafi eða við lok reikningsárs yfir einum milljarði króna þurfa að sæta svokallaðri skjölunarskyldu. Felur þessi skylda í sér að varðveita skuli skjöl um viðskipti milli tengdra aðila, upplýsingar um viðskiptaskilmála, veltu og eignir. Þessi gögn skal varðveita í sjö ár og geta skattyfirvöld kallað eftir þeim eftir hentugleika.

Ekki hefur komið fram efnisleg gagnrýni á þessa nýju skyldu íslenskra fyrirtækja, en sumum þykir þó aðlögunartíminn skammur. „Í ljósi þess að leiðbeiningar OECD um framkvæmdina eru hátt í 400 blaðsíður hefði okkur þótt eðlilegt að fresta mögulegri beitingu viðurlaga um a.m.k. eitt ár eða fara dönsku leiðina sem felur í sér að engum viðurlögum er beitt ef að formskilyrðum laganna er fylgt á fullnægjandi hátt,“ segir Haraldur Ingi Birgisson, verkefnastjóri hjá Deloitte.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .